Tekjumörk raforkufyrirtækja

Samkvæmt raforkulögum ber Orkustofnun að setja flutningsfyrirtæki og dreifiveitum tekjumörk vegna kostnaðar við flutning og dreifingu raforku sbr. 12. og 17. gr. raforkulaga, nr. 65/2003. Nú hafa tekjumörk verið sett fyrir raforkudreifingu dreifiveitna.

Tekjumörk eru þær hámarkstekjur sem sérleyfisfyrirtæki er heimilt að afla sér að gefnum ákveðnum forsendum. Fyrirtækinu ber að stilla af verðlag gjaldskrár sinnar, þannig að hún skili eigi meiri tekjum en settum tekjumörkum.

Tekjumörk eru sett til fimm ára í senn og eru að meginhluta til byggð á sögulegum rekstrarkostnaði þeirra, greiðslu fyrir flutning (þar sem það á við), orkutöpum, afskriftum og hagnaði. Þau taka þó ýmsum breytingum á tímabilinu þegar forsendur breytast, svo sem vegna verðlagsbreytinga, nýrra eigna, hækkunar eða lækkunar vaxta meðal annarra þátta. Tekjumörkin eru síðan gerð upp að tímabilinu loknu og sá munur sem verður til, annað hvort jákvæður eða neikvæður, er færður til næsta árs.

Dreifiveitum, sem leyfi hafa fyrir dreifbýlisgjaldskrá, eru sett tekjumörk fyrir dreifbýlisgjaldskrá annars vegar og þéttbýlisgjaldskrá hins vegar.

Tekjumörk dreifiveitna fyrir raforkudreifingu fyrir árin 2011-2015:

Dreifiveita Tekjumörk 2011 (þús. króna)
HS Veitur 2.165.065
Norðurorka 536.323
Orkuveita Reykjavíkur 5.782.929
Orkubú Vestfjarða 916.184
Rafveita Reyðarfjarðar 103.741
RARIK 6.087.999