Samgöngu- og ökutækjastefna Orkustofnunar

Þessari stefnu mun Orkustofnun fylgja með eftirfarandi að leiðarljósi:

·       Draga úr notkun jarðefnaeldsneytis.

·       Auka hlut eldsneytis frá endurnýjanlegum orkugjöfum.

·       Hvetja og koma til móts við starfsmenn sem vilja nýta vistvænar samgönguleiðir.

·       Tryggja öryggi starfsmanna.

Að ofangreindum markmiðum vill Orkustofnun vinna m.a. með eftirfarandi leiðum:

1.     Bifreiðar keyptar á vegum Orkustofnunar skulu knúnar vistvænum orkugjöfum þar sem orkunýtni verður höfð til viðmiðunar í vali á bifreið.

2.     Ef ofangreind ökutæki henta illa eða fást ekki á viðunandi kjörum skal leitast við að velja bifreiðar með lægstu eyðslugildi sem völ er á hverju sinni.

3.     Þegar leigðar eru bifreiðar, bílaleigu- eða leigubifreiðar, skal ávallt leitað þjónustu fyrirtækja sem bjóða upp á bifreiðar knúnar vistvænum orkugjöfum og/eða visthæfum bifreiðum með útblástursgildi undir 100 CO2g/km. Ávallt skal óskað eftir slíkum bifreiðum nema sérstakar aðstæður kalli á stærri bifreiðar.

4.     Ef nauðsynlegt reynist að nýta stærri bifreiðar vegna sérstakra aðstæðna skal leitast við að velja orkunýtnasta ökutækið í hverjum stærðarflokki.

5.     Starfsfólki Orkustofnunar verður boðið upp á námskeið í vistakstri sem dregur úr eyðslu og umhverfisáhrifum og eykur jafnframt öryggi við akstur.

6.     Orkustofnun tryggir góða aðstöðu fyrir reiðhjól, m.a. með upplýstu hjólaskýli.

7.     Leitast verður við að draga úr ónauðsynlegum ferðum með hjálp upplýsingatækni og aukinni samnýtingu ferða.

8.     Starfsmenn sem skuldbinda sig til að ferðast á vistvænan hátt til og frá vinnu, þ.e. ganga, taka strætó, hjóla eða koma með öðrum í bíl eða með vistvænu ökutæki, fá áskrift að almenningssamgöngum á kostnað stofnunarinnar.

9.     Til að auðvelda starfsmönnum að nýta sér vistvæna ferðamáta til og frá vinnu mun Orkustofnun sjá um farkosti vegna vinnutengdra ferða starfsmanna, annað hvort með bílum á vegum Orkustofnunar, bílaleigubílum eða leigubílum.

10.   Starfsfólk Orkustofnunar skal þegar kostur er nýta almenningssamgöngur á vinnutíma og leitast við að ganga styttri vegalengdir nema sérstakar aðstæður kalli á annað.

11.   Orkustofnun skal halda kolefnisbókald vegna flugferða starfsmanna og þróa aðferðir til þess að ná einnig til annarra þátta.

12.   Starfsmenn skulu ávallt á vinnutíma og í ferðum á vegum stofnunarinnar gæta fyllsta öryggis við val á samgöngutækjum og fylgja lögum og almennum reglum við notkun þeirra.

Guðni A. Jóhannesson
Orkumálastjóri
Reykjavík, 1. febrúar 2013