Eldsneytiseftirlit

Samkvæmt lögum um Orkustofnun nr. 87/2003 er eitt af meginhlutverkum stofnunarinnar að safna gögnum um orkulindir og aðrar jarðrænar auðlindir, nýtingu þeirra og orkubúskap landsmanna, varðveita þau og miðla upplýsingum til stjórnvalda og almennings. Í samræmi við þetta hlutverk, safnar Orkustofnun gögnum um jarðefnaeldsneyti sem og upplýsingar um aðra orkunýtingu á Íslandi.

Til að sinna hlutverki því sem lýst er hér að ofan, er Orkustofnun heimilt að krefjast gagna sem varða nýtingu á jarðrænum auðlindum, orkuframleiðslu og orkunotkun, þ.m.t. gagna um innflutning, geymslu og sölu á jarðefnaeldsneyti. Skylt er þeim sem stunda atvinnurekstur er varðar framangreint að afhenda stofnuninni gögn samkvæmt reglugerð nr. 870/2013 um söfnun gagna um innflutning, geymslu og sölu á eldsneyti.

Framleiðendur og seljendur eldsneytis þurfa að skila gögnum til Orkustofnunar fyrir 1. febrúar ár hvert. Við lagabreytingarnar sem samþykktar voru fyrr á árinu 2013, lög um endurnýjanlegt eldsneyti í samgöngum á landi nr. 40/2013, þurfa framleiðendur að skila til viðbótar við hefðbundin gagnaskil gögnum um hráefni sem notað er til framleiðslu eldsneytis. Seljendur þurfa að skila til viðbótar við hefðbundin gagnaskil, skil á staðfestingu um sjálfbærni eða greinargerð um uppruna eldsneytis, árituð af endurskoðanda. Leiðbeiningar um staðfestingu á sjálfbærni má finna í kafla 3. Leiðbeiningar um skil á greinagerð um uppruna eldsneytis má finna í kafla 4.

Seljendur og framleiðendur eldsneytis þurfa að skila gögnunum inn í þjónustugátt Orkustofnunar fyrir 1. febrúar ár hvert. Leiðbeiningar um skil á gögnum inn í þjónustugáttina er að finna í kafla 6 í bæklingi um gagnaskil.