Eldsneyti á Íslandi

Saga eldsneytis á Íslandi

Bátar í HafnarfjarðarhöfnFrá upphafi byggðar í landinu og fram á 20. öld var viður, mór, þari og sauðatað notað til brennslu og allt fram á síðustu öld var eldsneyti orkugjafinn sem nýttur var á Íslandi (að undanskildum þeim fáu vindmyllum sem reistar voru), en þá hófst nýting vatnsafls og jarðhita landsins.

Eldsneytisnotkun

Megnið af innfluttu eldsneyti Íslendinga er notað við fiskveiðar og í samgöngum eða um 90% af innfluttri olíu. Járnblendiverksmiðjan á Grundartanga notar megnið af innfluttum kolum. Notkun á gasi er óveruleg miðað við annað eldsneyti og er um þriðjungur notaður í stóriðju, þriðjungur fer til heimilisnotkunar og þriðjungur í þjónustu og annan iðnað en stóriðju.

Mengun vegna eldsneytisnotkunar

Nýting orku, sérstaklega brennsla jarðefnaeldsneytis, veldur losun ýmissa mengandi efna út í andrúmsloftið. Við bruna jarðefnaeldsneytis, sem að stærstum hluta er kolefni, myndast mikið magn koldíoxíðs (CO2). Koldíoxíð er ein þeirra lofttegunda sem valda auknum gróðurhúsaáhrifum, en aukning þessara áhrifa kann að leiða til veðurfarsbreytinga með ófyrirsjáanlegum afleiðingum fyrir lífið á jörðinni. Af þesssum sökum hafa þjóðir heims bundist samningum um að takmarka losun gróðurhúsalofttegunda.

Umhverfisstofnun fylgist með útstreymi gróðurhúsalofttegunda hér á landi. Orkustofnun safnar gögnum er varða orku m.a. notkun eldsneytis sem stofnunin veitir Umhverfisstofnun vegna losunarbókhaldsins.